Á fjölsóttum aðalfundi 15. mars sl. hjá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum var ákveðið að allir félagar í Grindavík væru undanþegnir félagsgjöldum til FEBS árið 2024.
Félagar úr Grindavík munu þó njóta fullra réttinda í félaginu. Þetta er fyrst og fremst táknræn ákvörðun. FEBS félagar segja hátt og skýrt: Við stöndum með Grindvíkingum og erum svo sannarlega til í að rétta fram hjálparhönd. Félagar okkar úr Grindavík eru tvístraðir víða um land og munu eiga fullt í fangi með að halda saman hópnum. Endalaust eru að berast fréttir af húsnæðisvanda og sumir félagar okkar búa við vægast sagt ömurlegar aðstæður. Þessu ástandi verður að linna!
Við ákváðum að fara nýja leið með útgáfu á félagsskírteininu, í ár verður skírteinið rafrænt. Stjórnin gerði samning við „Spara appið“ þar sem er möguleiki á að halda utan um FEBS skírteini sem birtist í síma viðkomandi eftir að félagsgjald hefur verið greitt í heimabanka. Fyrst þarf að hlaða niður „Spara appinu“ í símann. Þar er ekki bara skírteini FEBS að finna, heldur líka fjölmargir afslættir sem félagsmenn geta nýtt sér víða um land. Þar birtist einnig afsláttarkort frá Landsambandi eldri borgara (LEB) sem inniheldur fjöldann allan af tilboðum og afsláttarkjörum.
Listi yfir þá sem veita afslætti á Suðurnesjum verður svo birtur í Aftanskininu, sem mun verða dreift á helstu staði og verður til afhendingar á skrifstofu FEBS.
Þeir félagsmenn sem ekki hafa snjallsíma eða vilja ekki fara í rafrænt skírteini geta fengið venjulegt skírteini sem verður afhent á skrifstofu félagsins á Nesvöllum. Skrifstofan verður opin fjóra daga í viku, mánudaga til fimmtudaga frá kl.11.00 – 14.00 í maí.
Framundan er fjölbreytt dagskrá að venju t.d. ferðalög, leikhús, árshátíð, þorrablót, og spiluð verður vist, brids og bingó á Nesvöllum. Ýmis konar fræðsla og nýungar í félagsstarfi sem kynntar verða síðar.
Kæru félagar.
Njótum sumarsins, hittumst hress og kát og njótum samverunnar hvert með öðru.
Fh. Stjórnar FEBS
Kristján Gunnarsson formaður