Að loknum glæsilegum og fjölsóttum aðalfundi hjá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum þann 3. mars sl. hefur stjórnin hafið vinnu við að skipuleggja starfið framundan.
Stjórn félagsins er skipuð fulltrúum frá öllum sveitarfélögum á félagssvæði FEBS. Verkefnin eru mörg og krefjandi s.s. landsfundur í Borgarnesi þar sem ellefu fulltrúar frá FEBS munu mæta.
Kjaramál eldri borgara verða í kastljósi fundarins. Óþolandi er sú staða að það sé til stór hópur eldri borgara sem hafa vart til hnífs eða skeiðar í þjóðfélagi þar sem stjórnvöld stæra sig af því að vera eitt það besta í alþjóðasamanburði. Við fáum fréttir af því að eldri borgarar hafi ekki efni á að leysa út nauðsinleg lyf eða að sækja sér þjónustu sem þarf að greiða fyrir. Þeir sem lakast eru settir þurfa að velta hverri krónu margsinnis og endar ná ekki saman hvernig sem reynt er. Þrátt fyrir falleg loforð um að leiðrétta kjör og draga úr tekjuskerðingum þá gerist bara ekki neitt, efndirnar standa á sér sama hvaða stjórnmálaöfl ráða ríkjum.
Eftir aðalfundinn var hafist handa við að útbúa heimasíðu félagsins, sem verður febs.is þar verður að finna helstu upplýsingar um félagið, hvað sé helst á dagskrá, þar munum við deila með félagsmönnum fréttum frá starfinu ríkulega myndskreyttum. Samþykkt var tillaga í stjórn frá varaformanni að leggja til hliðar peninga í sérstakan sjóð til að rita sögu félagsins þegar þar að kemur.
Áfram verður starfað að fullum krafti í félagsstarfi sem verið hefur á vegum nefnda FEBS. Þar má nefna Léttir föstudagar hér á Nesvöllum, Ferðanefndin verður með spennandi verkefni, Spilanefndin með félagsvist tvisvar í viku, Bingónefndin með bingó tvisvar í viku, Bridsnefndin á mánudögum, Leikhúsnefndin verður með eitthvað á fjölunum, Viðburðarnefnd er í startholunum og Basarnefnd með árlegan basar. Félagið kemur að fjölmörgum verkefnum með styrkjum og tekur þátt í
verkefnum sem varða kjör og velferð eldri borgara á Suðurnesjum.
Á síðasta ári gaf félagið góðar gjafir til sveitarfélagana á félagssvæðinu sem var vel tekið. Við munum ávallt vera á vaktinni og ef við getum liðsinnt með góðum verkum þá gerum við það eftir efnum og
ástæðum. Við viljum hvetja félaga til að vera á vaktinni, koma og sækja viðburði og taka með sér gesti sem eftir vill munu vilja gerast félagar í FEBS, endilega hvetjum þá sem er einmanna og gerum þeim glaðan dag með samveru, gleði og væntumþykju.
Undanfarið höfum við verið að endurnýja félagsskírteinið nýtt skírteini verður sent út fyrir 1. júní nk. Félagsmönnum hefur fjölgað um fjögur hundruð á síðasta ári og er það vel. Haft hefur verið samband
við alla þá aðila sem veita félagsmönnum afsláttakjör. Alls staðar er okkur vel tekið og við viljum hvetja félagsmenn til að nýta sér kjörin sem okkur bjóðast. Það munar um hverja krónu sérstaklega nú
á tímum mikillar verðbólgu og dýrtíðar.
Það þarf bara að sýna skírteinið við upphaf viðskipta. Við þökkum þeim sérstaklega sem veita okkar félagsmönnum afsláttar kjör og hvetjum félaga okkar til að beina viðskiptum sínum til þeirra.
Baráttan heldur áfram.
Það eru áfram verk að vinna bestu verkfærin sem við höfum er samstaðan og samheldni, okkur eru allir vegir færir ef við stöndum saman um framsækin baráttumál og virkjum samstöðuna.
Fh. Stjórnar FEBS
Kristján Gunnarsson formaður